
80 episodes

Virðing í uppeldi medvitadirforeldrar
-
- Society & Culture
-
-
4.8 • 13 Ratings
-
Þetta er hlaðvarp Meðvitaðra foreldra – virðing í uppeldi. Hér er rætt á jafningjagrundvelli um eigin reynslu, líkt og gert er á mánaðarlegum foreldramorgnum og -kvöldum. Þá bjóðum við góðum gestum til okkar sem hafa eitthvað alveg sérstakt fram að færa um virðingarríkt uppeldi.
-
80. Tryggvi Hjaltason
Tryggvi Hjaltason er duglegur að tjá sig um málefni barna og stöðuna í menntakerfinu og er sjálfur fjögurra barna faðir á aldrinum eins til tólf ára. Hann er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP og er þeim eiginleikum gæddur að hann dýfir sér djúpt ofan í málefnin sem vekja áhuga hans.
Guðrún Inga Torfadóttir ræddi við hann um sýn hans á uppeldið, hlutverk hans sem uppalanda og maka, hvernig hann hefur þroskast í hlutverkinu, hvaðan innblásturinn hans kemur hvað það varðar og stöðuna í dag hjá drengjum sem og varðandi skjánotkun barna.
Frábært spjall í þessum áttugasta þætti okkar! -
79. Þátturinn sem þú vilt hlusta á - með Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur
Perla Hafþórsdóttir heimsótti reynsluboltann, fag- og ástríðukonuna fyrir velferð barna, Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur, Öddu, og fékk að eiga við hana samtal um ævistarfið og þau tól og tæki sem hún hefur þróað í starfi sínum með börnum.
Adda heldur utan um kennslu í forvörnum um ofbeldi fyrir börn, foreldra og kennara ásamt því að ræða um heilbrigð samskipti og kenna börnum að vera læs á tilfinningar sínar á stofu sinni.
Fræðsluátakið kallast Samtalið - fræðsla ekki hræðsla. Hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2000 og hefur allar götur síðan unnið að forvörnum í ofbeldismálum fyrir börn. Í námskeiðs- og fræðslupakkanum sem farið er með inn í skóla og leikskóla er unnið að aðgerðaráætlun og áætlun um hvernig eigi að bregðast við ef grunur um ofbeldi vaknar. Fræðslan miðar að því að kenna fólki að þekkja merkin og auka meðvitund um ofbeldi.
Lausnarhringurinn varð síðan til þegar hún starfaði í leikskólanum Brákarborg. Hún var með elstu börnin sem áttu erfitt að finna taktinn saman þar til Arnrún beindi kröftum þeirra sameiginlega að því að finna lausnir og geta unnið betur saman. Lausnarhringurinn er verkfæri með sjö gildum eða reglum sem aðstoða börn við að leita lausna í samskiptum. Börnin tóku því virkan þátt í gerð Lausnarhringsins ásamt fleira starfsfólki og það er lykillinn að því að hann virkar jafn vel og hann gerir.
Þetta er því sérdeilis frábær þáttur fyrir foreldra jafnt sem fagfólk. Njótið vel. -
78. Mörk og samfélagslegt uppeldi
Eftir gríðarlega neikvæðar fréttir að undanförnu um líðan barna, eineltismál, frásagnir af ofbeldi og með menntamálin í deiglunni töldum við rétt að taka aðeins púlsinn hjá tveimur frábærum sem vita talsvert um hlutina.
Anna Rakel Aðalsteinsdóttir, félagsfræðingur og sáttamiðlari hjá Foreldrahúsi og Sólveig María Svavarsdóttir, heimakennari, unnu eitt sinn saman í grunnskóla. Þær hafa báðar gríðarmikla reynslu að baki að því að vinna með börnum, horfa á kerfið innan og utan frá, ala upp sín eigin börn og ala sig upp sjálfar aftur í leiðinni. Það var frábært að fá þær í opið spjall og barst talið m.a. að:
- Hvert er hlutverk foreldra?
- Hvernig setjum við mörk?
- Hvert er skólasamfélagið að stefna?
- Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru og hvernig getum við reynt að hreyfa þessa stóru skútu í átt til breytinga?
Frábært og hugvekjandi spjall sem ég vona að við höfum öll gott af.
Upptöku stjórnaði Guðrún Inga Torfadóttir en hún vitnaði nokkrum sinnum í nýja bók dr. Becky, Good Inside. Mælum með henni! -
77. Umhverfisþættir í uppeldi með Unu Emilsdóttur
Í þættinum fékk Árni Kristjánsson til sín Unu Emilsdóttur, sérnámslækni í umhverfislæknisfræði, til að ræða um heilsuspillandi efni í nærumhverfi okkar og hvernig aukin þekking á skaðsemi þessara efna getur aukið sjálfstraust í foreldrahlutverkinu og stuðlað að virðingu í uppeldi. Una er brautryðjandi hér á landi í vitundarvakningu um áhrif efnanotkunar á heilsu okkar. Hún er jafnframt tveggja barna móðir ungra barna.
Börn, sérstaklega á meðgöngu og hin fyrstu árin, eru með vanþróaðra hreinsikerfi en við fullorðna fólkið. Nýru og lifur eru ekki eins öflug hreinsunarlíffæri fyrstu árin mælast því ákveðin eiturefni í blóði barna oft mun hærra en hjá fullorðnu fólki - sem þó hefur farið í gegnum lífsskeiðið syndandi í alls kyns efnasúpum. Börn eru líka á meðan þau eru skríðandi, gjörn á að taka þar með sér ryk - en eiturefni eru einmitt mjög gjörn á að loða við ryk. Þá er fylgjan ekki eins mikill skjöldur og við upphaflega héldum. Eins er hormónakerfið og ónæmiskerfið enn ekki fyllilega þróað á þessum viðkvæmu fyrstu árum. Börn eru að mynda mikilvægar taugabrautir á þessum tíma, styrkja einar og tengja saman hinar, osfrv. En áhrif umhverfis koma ekki nauðsynlega fram fyrr en jafnvel löngu seinna á lífsskeiði barna, og því erfitt fyrir foreldra að tengja þetta beint.
Það er ennþá svo margt sem við getum gert og margt sem við getum ráðið við að gera, til að reyna allt hvað við getum til að vernda meðgönguna og þess vegna er þetta umræðuefni svona mikilvægur þáttur í virðingu í uppeldi. -
76. Um íþróttauppeldi barna
Kristín Björg Viggósdóttir fékk þau Viðar Halldórsson og Guðlaugu Ingibjörgu Þorsteinsdóttur í spjall um tilgang íþróttaiðkunar fyrir börn. Þau ræddu aðgengi barna að íþróttum og hvernig íþróttir gætu verið meira á forsendum barnanna frekar en á forsendum íþróttagreina. Til að mynda hefur sýnt sig að börn innflytjenda taka síður þátt í íþróttum og stelpur síður en strákar. Einnig getur verið flókið fyrir börn með tvö lögheimili að stunda íþróttir. Þá ræddu þau um mismunandi styrkleika barna, hversu óþarft og skaðlegt það getur verið að umbuna eða veita börnum á yngri árum verðlaun fyrir afrek í íþróttum. Hvernig getum við foreldrar sýnt góð og styðjandi viðbrögð við frammistöðu barnsins í íþróttum? Mikilvægt sé að ræða við börnin um hvernig þeim leið í keppni. Að lokum var rætt um skólasund og skólaíþróttir og hvað mætti betur fara þar.
Viðar Halldórsson er prófessor í félagsfræði og hefur einnig starfað sem ráðgjafi fyrir mörg af bestu íþróttaliðum landsins. Viðar hefur rannsakað og skrifað um félagslegar forsendur árangurs. Viðar hefur látið til sín taka í umræðu um afreksvæðingu íþrótta á Íslandi en til eru margar greinar eftir hann og viðtöl við hann. Nýlega skrifaði Viðar bók um stemningu og liðsheild í íþróttum fyrir breska útgáfufyrirtækið Routledge. Bókin heitir Sport in Iceland: How small nations achieve international success og er meðal annars til á Amazon.
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir íþrótta- og lýðheilsufræðingur starfar hjá geðheilsuteymi Höfuðborgarsvæðisins. Guðlaug spilaði lengi íshokkí og var íþróttastjóri og þjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Að auki hefur Guðlaug þjálfað börn og fullorðna í íþróttum og heilsurækt. Þess má geta að Guðlaug er fyrrum nemandi Viðars úr íþróttafræði í HR. -
75. Skólabyrjun
Til Guðrúnar Ingu mættu þær Una Guðrún Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskólastigs og grunnskólakennari sem sérhæft hefur sig í kennsluaðferðum í lestri – en ekki síst fjögurra barna móðir - og Þórey Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri leikskólastigs og tveggja barna móðir og reynslubolti í aðlögun og alls konar tengdu leikskólanum í Urriðaholtsskóla.
Þær þrjár ræddu allt og ekkert sem tengist því að byrja í leikskólanum og grunnskólanum. Lestrarnám bar auðvitað líka á góma sem og ýmislegt annað.
Dúndur hugvekja fyrir nýtt leikskóla- og skólaár.
Customer Reviews
Frábært!
Algjör snilld - mæli með þessu!