Sofum saman

sofumsaman.is

Þáttur um svefn. Og auðvitað allt á milli himins og jarðar.En dáldið mikið um svefn. 

  1. Sofum saman: Hrotið á fjöllum

    EPISODE 1

    Sofum saman: Hrotið á fjöllum

    Einar Sveinn Westlund hefur verið mikið uppi á fjöllum og unnið sem gönguleiðsögumaður. Hann hefur hrotið í mörg ár. „Ég er vanalega að vinna 14–16 tíma á dag og svo sef ég í tjaldi og vakna svo eldsnemma til að gera morgunmat fyrir alla. Og það hefur ekki endilega alltaf verið auðveldast í heimi. Síðan hefur ekki hjálpað mér að síðan ég man eftir mér, bara á morgnana, þá er það sem ég kalla zombí–mode. Klukkutími venjulega þar sem ég vil ekki að neinn tali við mig. Ég get ekki svarað neinu. Ég er eiginlega bara gagnslaus á morgnana. Ég hrýt rosalega hátt og rosalega mikið. Og þetta hefur verið svolítið vandamál við að vera fjallaleiðsögumaður – að vera uppi á fjöllum og gista í tjöldum. Ég er aldrei vinsæll, sérstaklega þegar við erum að gista á sama stað í tvær nætur í röð. Það er alltaf horft á mann á morgnana og það finnst mér mjög óþægilegt. En síðan einmitt í einni gönguferð, með mínu eigin fyrirtæki sem ég kalla Feast in the Wild, var ég með rosalega skemmtilegan tannlækni frá Utah. Þetta var alveg mjög skemmtilegur karakter. En hann sýndi mér einn svona svefngóm. Hann lofaði öllu góðu með þessu og sagðist sjálfur hafa hrotið alveg ótrúlega lengi. Hann sagði að gómurinn hefði bjargað honum.“ Einar tekur undir þessa upplifun eftir að hann fékk sér svefngóm. „Þetta er eiginlega eins og að hafa lifað í myrkri og svo loksins komið í ljósið. Það er ótrúlegt hvað það breytir miklu að fá góðan svefn.“ Í læri hjá Noma „Svo langaði mig að læra meira um ætiplöntur í náttúrunni. Ég var búinn að vera mikið á ferðinni, flytja á milli landa, til Ítalíu, Kanada og Finnlands. Þá komst ég að því að það var í boði styrkur sem gæti hentað mér. Hann heitir Erasmus for Young Entrepreneurs. Það er fyrir fólk sem er annaðhvort nýbyrjað í rekstri eða er með viðskiptahugmynd. Þá getur maður farið hvert sem er innan Evrópu og lært af einhverjum sem hefur a.m.k. fimm ára reynslu í viðkomandi geira. Ég fékk þá símanúmer, hringdi bara beint og sagði: Thomas benti mér á að hafa samband við þig. Ég er Íslendingur með styrk frá Evrópusambandinu. Ég vinn sem leiðsögumaður í náttúrunni og gæti unnið frítt fyrir ykkur í sex mánuði gegn því að fá að læra. Þannig endaði ég í Danmörku á veitingastaðnum Noma, sem flestir ættu að þekkja, þar sem ég var að tína ætiplöntur í sex mánuði.“  Noma státar af þremur Michelin–stjörnum ásamt því að hafa fimm sinnum verið valið besta veitingahús í heimi frá árinu 2010. Veisla í náttúrunni „Þetta er einmitt það sem ég hef verið að vinna með síðan. Planið fyrir næsta vor er að fara að setja þetta allt saman undir nafninu „Feast in the Wild“. Á Instagram heiti ég „feast in the wild“, og svo er líka að koma upp heimasíðu, feastinthewild.com. Þar verður ekki bara sagan mín heldur líka upplýsingar um hvaða ætar plöntur eru til hér á Íslandi, hvernig þær eru notaðar í lækningaskyni og fleira.“ Hvar týndist þekkingin? „Mín kenning er sú að fyrir 500 eða 1000 árum hafi fólk vitað um þessar plöntur. Það er alveg ástæða fyrir því að það eru ótrúlega mörg gil sem heita Hvanngil. Já, og mikið af þessum plöntum lykta vel og smakkast vel og eru góðar fyrir mann. Fyrir nokkrum árum fór ég til Skotlands í jurtatínsluferð sem tengdist líka sjávarplöntum. Það er eiginlega næsta skref hjá mér. Ég vil bjóða bæði upp á ferðir á íslensku og ensku. Ég hef talað um þetta í fjögur ár en á meðan hef ég byggt upp ferðafyrirtækið mitt og grúskað áfram. Nú finnst mér komið að því að miðla þessari þekkingu um plönturnar.“ Sofum saman er nýtt hlaðvarp. Þar fáum við góða gesti sem hafa glímt við ýmis konar svefnvanda eða luma á góðum ráðum varðandi svefninn.  sofumsaman.is

    32 min
  2. Sofum saman: Leiðist að sofa

    EPISODE 2

    Sofum saman: Leiðist að sofa

    Þórgnýr Thoroddsen var vanur að fara seint að sofa áður en hann kynntist konunni sinni. Hann segir okkur aðferðir sem hann notar til að komast í svefnflæði. Fannst tímaeyðsla að sofa „Mér finnst ofsalega leiðinlegt að sofa. Allir þessir klukkutímar sem fara í þetta, maður getur nýtt þá í eitthvað annað. En ég sef alveg mína sjö, átta tíma á hverri nóttu og er alveg góður í því að sofa. En í svona tíu ár þá svaf ég ábyggilega ekki mikið meira en fjóra, fimm tíma á nóttu. Það var bara svo gaman. Það var alltaf eitthvað að gera. Og svo kynntist ég konunni minni og hún er kvöldsvæfasta manneskja allra tíma. Hvað var ég búinn að koma mér út í? Ég var bókstaflega að pæla í að hætta með henni vegna þess að ég bara meikaði þetta ekki. Klukkan tíu á kvöldin þá var hún bara byrjuð að geispa og sagðist ætla að fara að sofa. En eins og gerist þegar manni líkar við manneskju, þá byrjar maður að mætast í miðjunni og eftir því sem á leið færðist hennar svefntími fram yfir ellefu og minn færðist kannski nær miðnætti frá tvö.“  Rútína og litlir sigrar hjálpa „Ég er 43 ára. Ég horfðist í augu við það að ef maður er ekki búinn að læra að stjórna sér aðeins, hafa einhverja smá stjórn á þessu og sætta sig við ákveðna rútínu, þó að það sé hundleiðinlegt, að þá þarf maður að fara að taka þetta aðeins alvarlega. Ef þú ert kominn yfir fertugt og getur ekki rútínur, þá þarftu að fara að æfa þig. Það eru hlutir sem eru svona besta mögulega aðferðarfræðin. Það eru litlir hlutir. Ef ég var duglegur í dag þá líður mér eins og ég megi fara að sofa í kvöld vegna þess að ég gerði eitthvað í dag. Og það fyrsta sem ég geri á hverjum einasta degi, og ég veit að ég hljóma eins og leiðinlegasta manneskja í veröldinni þegar ég segi þetta, en ég bý um rúmið mitt. Og það tók mig ábyggilega 30 ár að fatta þetta. Og ég setti mér þá reglu að gera þrjá góða hluti á hverjum degi. Og fyrsti hlutinn er búinn vegna þess að ég bý alltaf um rúmið. Þá eru bara tveir eftir. Hverjir eru þeir? Koma sér í vinnuna? Eða fara í apótekið? Eða bara eitthvað. Það skiptir ekki máli hvað það er. En þegar þú er búinn með þessa þrjá hluti og klukkan er enn þá bara hálf tíu, þá er maður bara, ok ég get gert einn hlut í viðbót í dag. Ef maður hugsar þetta svona, skref fyrir skref, þá gerir maður á endanum miklu fleiri hluti. Og ef maður gerir þrjá hluti á hverjum einasta degi, það eru 365 dagar á ári, eru það meira en þúsund góðir hlutir á ári sem þú gerir. Og það er hvetjandi. Og þá hugsar heilinn í þér, geggjað, ég er búinn að vera duglegur í dag, þegar þú kannski raunverulega varst ekki duglegur. En þetta er svona lítil hvít lygi sem virkar og gerir mig duglegri og afslappaðri en það hjálpar mér að sofa.“  Einbeittu þér að verknum Þórgnýr fór í stóra aðgerð þar sem annar fóturinn var réttur af.   „Þetta var stór aðgerð, ég er enn þá að ná mér. Mér var illt í fætinum. En svefninn minn var bara svolítið venjulegur fyrstu vikurnar. Ég tók parkódín til að draga úr mestu óþægindunum. Og þegar mér var illt og það var að trufla mig þá minntist ég þess þegar ég var í menntaskóla og hafði fengið paper cut, skorið mig á blað. Mér var ógeðslega illt í puttanum og einn félagi minn var með lækningu við þessu. Nú? Hver er lækningin? Hann sagði: „Einbeittu þér að sársaukanum. Hugsaðu um sársaukann. Virkilega reyndu að finna fyrir honum og fókusa á hann.” Þetta meikar engan sens! En ég prófaði þetta. Og þeim mun meira sem þú reynir að fókus á sársaukann þeim mun minni áhrif hefur sársaukinn á þig. Þetta á ekki við um allan sársauka. En öll svona minniháttar óþægindi eins og beinbrot til dæmis. Ég meina, hællinn á mér var sagaður af mér! Þetta er ekki eitthvað næs. En þegar þetta var óþægilegt, bara einbeita mér að því, bara fókusa á hælinn. Mér fannst þetta hjálpa.“ sofumsaman.is

    32 min
  3. Sofum saman: Dottaði undir stýri

    EPISODE 3

    Sofum saman: Dottaði undir stýri

    Josie Anne er ung kona sem berst við kæfisvefn. Hún segir okkur frá vandamáli sínu sem er of lítill kjálki sem veldur henni heilmiklum svefn vanda. „Ég heiti Josie Anne og starfa í listageiranum og er verkefnastjóri. Ég er 34 ára og fæddist og ólst upp í Skotlandi en hef búið á Íslandi síðustu fjögur ár. Og ég hef hrotið í mörg ár. Ég held að þetta hafi byrjað einhvern tíma snemma á unglingsárunum. Starfið mitt er mjög krefjandi og felur oft í sér mikla næturvinnu og óhefðbundinn vinnutíma. Það hefur alltaf hentað mér vel. Ég gat sofið hvenær sem ég þurfti og mér fannst líka í lagi að vera vakandi nánast allan sólarhringinn. Mér fannst ég aldrei þurfa mikinn svefn. Núna geri ég mér grein fyrir því að ég svaf í raun aldrei vel út af því að ég var með kæfisvefn. Líkaminn einfaldlega aðlagaðist litlum svefni LEITAÐI SÉR LÆKNISHJÁLPAR „Ég fékk svona hálfvolg viðbrögð, líklega vegna þess að ég er kona og lít ekki út eins og dæmigerður einstaklingur með kæfisvefn. Ég var spurð: „Sofnar þú yfir daginn?“ Og svo mikilvæg spurning tengd því: „Hefurðu einhvern tímann sofnað undir stýri?“ Já, það hefur gerst. Það gerðist bara einu sinni, bara í örstutta stund. En þetta sýnir bara hversu mikil áhrif þetta hefur, að þetta getur valdið því að maður sofni jafnvel í aðstæðum sem eru mjög hættulegar. Þegar ég sagði að ég hefði sofnað undir stýri breyttist allt því að þá var ég augljóslega ekki bara að setja mig í hættu heldur einnig líf annara. Þá var allt sett í gang og ég var send heim með tæki til að mæla svefninn. „Já, þetta lítur ekki vel út. Kjálkinn þinn er of lítill. Tungan er of stór. Samspilið þarna á milli virkar ekki. Þetta er vandamálið.“ Og það var ekkert sem hann gat gert til að laga þetta. Hann sagði að ég þyrfti að fara í skurðaðgerð. Hann var mjög rólegur yfir þessu, ekki dramatískur, en sagði jafnframt að þetta væri að skaða mig. Ef ég héldi áfram svona væri of mikill þrýstingur á lungu og hjarta og ég myndi líklega fá hjartaáfall á fimmtugsaldri. Það hafði mikil áhrif á mig að heyra þetta. En það hjálpaði mér líka að átta mig loksins á því að ég yrði að taka þetta alvarlega. TILRAUNIR MEÐ SVEFNGÓM Josie ætlar að prufa að sofa með góm og fylgjast með svefninum sínum. „Það sem ég ætla að prófa núna er gómur, sem maður mótar sjálfur, til að sjá hvort það hafi áhrif á svefninn minn. Ég yrði mjög ánægð ef það gæti gefið mér meiri hvíld og betri heilsu og líðan. Ég mæli svefninn minn með nokkrum mismunandi tækjum. Ég nota Apple Watch til að mæla lífsmörk, fylgjast með svefnstigum, hjartslætti og fleiru. Ég nota líka app sem heitir SnoreLab. Það tekur upp hljóð í svefni og mælir hversu hátt maður hrýtur. Maður getur hlustað á brot úr upptökunum, sem er frekar vandræðalegt. Ég reyni að gera það ekki. Það er mjög skrýtið að hlusta á sjálfan sig eiga svona erfitt með að anda. Mér fannst það mjög erfitt. Mér líður eins og þetta sé að gerast fyrir einhvern annan, einhvern sem ég vil hjálpa. Það er erfitt að sætta sig við það að eitthvað sem ætti að vera jafn einfalt og að anda sé ekki einfalt fyrir mig. En í alvöru, sem ung kona, þá hef ég í raun enga hugmynd um hvernig er að upplifa góðan nætursvefn. Það er mjög sorglegt. Mér finnst ég ekki þekkja neinn annan sem er að ganga í gegnum það sama og ég get talað við um þetta. Og eins og ég sagði þurfti ég að segja að ég hafi sofnað undir stýri áður en læknir tók þetta virkilega alvarlega. Þess vegna vil ég deila þessu því að þetta getur haft áhrif á okkur öll. Og ég vildi að ég hefði leitað hjálpar fyrr.“ Við ætlum að heyra betur í Josie Anne og fá að fylgjast með hvernig þessi tilraun hjá henni tekst í hlaðvarpinu Sofum saman. sofumsaman.is

    23 min
  4. Sofum saman: Stress oft ímynduð hætta

    EPISODE 4

    Sofum saman: Stress oft ímynduð hætta

    Búinn að glíma við svefnvanda alla ævi Finnbogi Þorkell Jónsson hefur farið ýmsar leiðir í sjálfsvinnu. Hann deilir með okkur sinni reynslu. Hann er lærður leikari og leiðsögumaður, jógakennari, hláturjógaleiðbeinandi og faðir. „Ég er alls konar, ég er bara manneskja og hef farið gegnum mjög krefjandi tíma, mörg stór áföll á frekar stuttum tíma. Og þegar maður er kýldur svona niður þá fara allar gömlu varnirnar. Þú getur ekki lengur leikið trúðinn eða verið klári gæinn eða flinki handlagni sonurinn. Þú liggur bara á jörðinni. Og þá koma líka upp öll áföllin þín. Og þá kemur upp allt það sem kannski hefur verið vandamál en þú hefur ekki náð kontróli á neinu. Og þar á meðal kom það sem ég hef verið að díla við meira og minna alla mína ævi en það er svefnvandi.“ Stress er oft ímynduð hætta „Við búum í þannig samfélagi að það er ekkert ljón að fara að koma hérna og éta okkur. Og við förum út í umferðina, jafnvel oft á dag, og við erum aldrei að pæla í að það sé stórhættulegt. Við erum bara að keyra. Ég vinn við að skemmta fólki, koma fólki til að hlæja og vera sniðugur, klár og fyndinn. Og ég verð oft yfir mig stressaður þó að ég sé búinn að gera þetta hundrað sinnum. En bara, sko, hvað er hættulegt við þetta? Og sama með svefninn. Þú kannski vaknar, ok, það er ekkert hræðilegt að fara að gerast. Það hræðilegasta er kannski það að þú verður að sleppa tökunum. Við stjórnum þessu ekki.“ Fer í rólega kvöldgöngu „En mundu það samt – að ganga er vanmetnasta hreyfingin. Og á öllum þessum ferli er ég búinn að halda að hreyfing ætti að snúast um að vera með sem mestan djöfulgang. „Ef þú svitnar ekki nógu mikið, ef púlsinn fer ekki alltaf í hæstu hæðir, þá er þetta ekki að virka, þetta er drasl, og ef þú djöflast á líkamanum alveg nógu mikið svo hann verði þreyttur, þá getur þú kannski sofnað.“ En ég var í rauninni bara að yfirspenna líkamann og hann var fullur af mjólkursýru og stresshormónum og svo þegar ég ætlaði að fara að sofa, ég var alveg þreyttur, náði ég ekki að sofna. Ég er að fatta smátt og smátt, við vorum að tala um tengslaleysi við náttúruna, tengslaleysi við eitthvað annað, það að fara út og bara taka eftir trjánum. Eða labba kannski bara í snjónum og hlusta á hvernig snjórinn kremst undir fótunum á manni. Ég labba oft ákveðinn hring, þá faðma ég tré. Og ég hef oft verði með fólk með mér sem finnst þetta skrítið, en svo er bara enginn að pæla í þessu. Faðmaðu bara tré þegar þig langar til þess. Og ef þig langar ekki til þess, þá skaltu ekki faðma tré. Þetta er ekki flókið, þú gerir bara það sem þig langar. En þetta hjálpaði mér rosalega mikið og ég geri þetta enn þá mjög mikið. Ég held að við höfum flest öll 30–40 mínútur ef við minnkuðum kannski bara skjátímann. En ég held að 70% af svokölluðum svefnvanda sé í raun og veru viðhorf okkar til vandans, ekki vandinn sjálfur. Segjum til dæmis að ég hitti þig og segi: „Ég svaf bara 5–6 tíma í nótt, maður. Dagurinn verður alveg hræðilegur. Það ná allir 8 tímum, allir nema ég!“ versus að segja: „Bara smá krefjandi nótt. Ég náði þó 5–6 tímum. Hver hefur ekki sofið 5–6 tíma og komist bara vel í gegnum daginn?“ Viðhorfið til þess sem við glímum við skiptir svo miklu máli. Ef þú ert alltaf að spá í vandanum, þá vex vandinn. Það þarf einhvern veginn að bera virðingu fyrir þessu en ekki blása þetta út því að þá ertu bara að manifesta þetta. Eins og sagt er á ensku, „you fall asleep“ og þegar þú er ástfanginn, „you fall in love“. Þú stjórnar þessu ekki. „Nú ætla ég sko að sofna! Eða: „Nú ætla ég sko að verða ástfanginn!““ sofumsaman.is

    52 min

About

Þáttur um svefn. Og auðvitað allt á milli himins og jarðar.En dáldið mikið um svefn.