67 episodes

Bogi Ágústsson ræðir um heimsmálin í þættinum Morgunvaktin á Rás 1 á hverjum fimmtudegi.

Heimsgluggin‪n‬ RÚV

  • News
  • 5.0 • 6 Ratings

Bogi Ágústsson ræðir um heimsmálin í þættinum Morgunvaktin á Rás 1 á hverjum fimmtudegi.

  Átök á Norður-Írlandi og úrslit kosninga á Grænlandi

  Átök á Norður-Írlandi og úrslit kosninga á Grænlandi

  Sjötta kvöldið í röð kom til óeirða á Norður-Írlandi í gærkvöld. Flóknar ástæður liggja að baki óánægju meðal sambandssinna í röðum mótmælenda. Ein ástæðan er reiði vegna þess að leiðtogar helsta flokks kaþólikka, Sinn Féin, voru ekki ákærðir fyrir brot á sóttvarnareglum þó að þau hafi brotið útivistarreglur með því að sækja útför IRA-skæruliðans Bobby Story í fyrra. Arlene Foster, fyrsti ráðherra Norður-Írlands og formaður stærsta flokks mótmælenda, hefur krafist afsagnar lögreglustjóra Norður-Írlands vegna málsins. Þá eru mótmælendur margir óánægðir með að Norður-Írland hefur breytta stöðu innan Sameinaða konungdæmisins, United Kingdom, eftir Brexit og í raun eiga að vera landamæri milli Norður-Írlands og annarra hluta Stóra-Bretlands. Naomi Long, formaður Alliance flokksins og dómsmálaráðherra Norður-Írlands, segir að hluti ástæðu óeirðanna sé að þeir sem vilji spilla friðinum séu í öfgasamtökum sambandssinna sem hafi verið í glæpastarfsemi og fíkniefnaviðskiptum og lögreglunni hafi tekist vel upp í baráttu gegn þessari glæpastarfsemi. Þá ræddu Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson niðurstöður þing- og sveitarstjórnakosninga á Grænlandi, þar sem stjórnarandstöðuflokkurinn Inuit Ataqatigiit, eða IA, vann stóran sigur. Ungur leiðtogi flokksins, Múte B. Egede, verður að öllum líkindum næsti formaður landstjórnarinnar eða forsætisráðherra. Hann verður aðeins annar IA-maðurinn til að gegn embættinu. Kupiik Kleist gegndi því frá 2009-2013 en annars hefur jafnaðarmannaflokkurinn Siumut veitt stjórnum Grænlands forystu frá því að fyrsta stjórnin var mynduð 1979.

  Deilur um bóluefni, skosk stjórnmál og ráðstafanir Erdogans

  Deilur um bóluefni, skosk stjórnmál og ráðstafanir Erdogans

  Deilur um útflutning bóluefna frá ríkjum Evrópusambandsins hafa valdið titringi í sambúð ESB-ríkja við granna sína, einkum Breta. Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu þá flóknu stöðu sem upp er kominn eftir að framkvæmdastjórn ESB lagði til verulegar takmarkanir á útflutningi bóluefna. Upphaflega voru Ísland og Noregur á lista þeirra landa sem ekki fengju bóluefni en forystumenn sambandsins hafa fullvissað íslenska ráðamenn um að ákvörðun ESB hafi ekki áhrif á samninga um afhendingu bóluefna til Íslands. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins SNP, stóð af sér vantrauststillögu sem Íhaldsflokkurinn lagði fram vegna þess að flokkurinn telur Sturgeon ekki hafa skýrt þinginu rétt frá varðandi rannsókn á málefnum Alex Salmond, fyrrverandi leiðtoga SNP. Salmond hefur verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi. Þó að þingið hafi lýst trausti á Sturgeon er ljóst að málið hefur skaðað hana og flokkinn aðeins rúmum mánuði fyrir kosningar til skoska þingsins. Erdogan forseti Tyrklands stendur í ströngu. Hann hefur rekið þriðja seðlabankastjórann á innan við tveimur árum vegna þess að hann var ósáttur við vaxtahækkun sem Erdogan segir kynda undir verðbólgu sem er alvarlegt vandamál í tyrknesku efnahagslífi. Þá eru víðtæk mótmæli í landinu vegna ákvörðuna forsetans um að segja Tyrkland frá Istanbúl-sáttmálanum, fyrsta bindandi alþjóðasáttmálanum sem gerður hefur verið með það að markmiði að draga úr kynbundnu ofbeldi. Tyrkneskar konur sem mótmæltu og stjórnarandstaðan segja að með því að segja Tyrkland frá sáttmálanum séu stjórnvöld í raun að senda ofbeldismönnum skilaboð um að heimilisofbeldi, nauðganir og jafnvel dráp á konum verði látin sitja á hakanum í réttarkerfinu.

  Illindi í alþjóðasamskiptum og flugslys á Fagradalsfjalli 1943

  Illindi í alþjóðasamskiptum og flugslys á Fagradalsfjalli 1943

  Úlfúð og illindi ríkja nú víða í alþjóðasamskiptum. Rússar hafa kallað sendiherra sinn heim frá Washington eftir að Bandaríkjaforseti svarað játandi spurningu um hvort Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri morðingi. Þá sökuðu Bandaríkjamenn Rússa um afskipti af kosningunum vestra í fyrra. Í Evrópu ganga hnútur á milli Breta og Evrópusambandsins. ESB hefur kært bresku stjórnina fyrir brot á alþjóðalögum því Bretar frestuðu einhliða tolleftirliti á milli Norður-Írlands og Bretlands. Kveðið er á um slíkt eftirlit í Brexit-samningnum. Í lokin ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir við Boga Ágústsson um flugslys á Fagradalsfjalli árið 1943. Þá fórust 14 Bandaríkjamenn, en einn komst lífs af. Meðal hinna látnu var Frank M. Andrews, yfirhershöfðingi bandaríska heraflans í Evrópu. Hann var að öllum líkindum á leið til Washington til að verða útnefndur yfirhershöfðingi innrásar bandamanna í Evrópu. Að Andrew látnum var Dwight Eisenhower fenginn til þess.

  Efnahagsaðgerðir og kreppa vegna COVID-19

  Efnahagsaðgerðir og kreppa vegna COVID-19

  Bandaríkjaþing samþykkti í gærkvöld bjargráðapakka til að takast á við efnahagskreppuna sem fylgt hefur heimsfaraldrinum. Útgjöld vegna aðgerðanna eru áætluð upp á 1,9 billjónir dollara og er þeim einkum ætlað að koma fólki með meðal- og lágar tekjur til góða. Hver Bandaríkjamaður á að fá 1400 dollara ávísun. Þetta ræddu Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar. Spáð er hagvexti í flestum vestrænum ríkjum á þessu ári eftir mikinn samdrátt vegna COVID-19 í fyrra. Þrátt fyrir það segir Kenneth Rogoff, hagfræðiprófessor við Harvard og einn virtasti hagfræðingur veraldar, að kreppunni sé ekki lokið. Við heyrum í Rogoff, sem skrifaði ásamt Carmen Reinhart bók um efnahagskreppur í 800 ár sem ber heitið ,,Núna er þetta öðruvísi", (This time it's different), sem Rogoff segir vera kaldhæðni. Þá var rætt um kalda sambúð Breta og ríkja Evrópusambandsins. Írar saka Breta um að hafa í tvígang brotið útgöngusaminginn úr ESB um stöðu Norður-Írlands. Í Bandaríkjunum er ráðamönnum umhugað um að Brexit stefni ekki friði á Norður-Írlandi í hættu. Írar hafa veruleg ítök vestanhafs, þar sem tugmilljónir rekja ættir sínar til eyjunnar grænu, þar á meðal Joe Biden forseti.

  Sturgeon í kröppum dansi, Frederiksen leggur land undir fót

  Sturgeon í kröppum dansi, Frederiksen leggur land undir fót

  Íhaldsflokkurinn í Skotlandi hefur lagt fram vantrauststillögu á Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands og leiðtoga Skoska þjóðarflokksins, SNP, vegna meintra ósanninda hennar um meðferð kærumála kvenna á Alex Salmond, fyrrverandi leiðtoga SNP. Sturgeon bar vitni fyrir þingnefnd í allan gærdag. Fréttaskýrendur telja hana hafa staðið af sér atlögu Íhaldsmanna sem þó segja spurningum ósvarað og ætla að halda vantrauststillögunni til streitu. Nicola Sturgeon og Alex Salmond voru nánir vinir og samstarfsmenn uns Salmond var ákærður fyrir kynferðislega áreitni árið 2018 en sú vinátta er fyrir bí og Salmond segir nú að Skoski þjóðarflokkurinn, undir forystu Sturgeon, standi að baki ofsóknum gegn sér. Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu skosk stjórnmál við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar og einnig ferð Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, til Ísraels í dag, ásamt Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis,. Þar leita þau samstarfs við Ísraelsmenn í bólusetningum. Hærra hlutfall Ísraelsmanna hefur verið bólusett en gengur og gerist í öðrum löndum vegna samnings sem ríkisstjórn landsins gerði við Pfizer um bólusetningar í landinu. Nú vill Frederiksen vita hvort Danir geti fengið bóluefni hjá Ísraelsmönnum gangi eitthvað af. Hún er gagnrýnd af fólki á vinstri kanti stjórnmálanna heima fyrir sem segir að Palestínumenn eigi að fá bóluefnið. Mai Villadsen, nýr leiðtogi Einingarlistans, segist hafa áhyggjur af samstarfi við ísraelsku stjórnina sem klárlega brjóti alþjóðarétt með því að bólusetja ekki íbúa hersetnu svæðanna.

  Bóluefni til fátækra ríkja og staða heimsfaraldursins

  Bóluefni til fátækra ríkja og staða heimsfaraldursins

  Gana fékk í gær fyrst ríkja bóluefni við kórónuveirunni í gegnum COVAX-samstarfið, sem á að tryggja fátækum ríkjum bóluefni óháð efnahag, þeim sem ekki hafa efni á því að kaupa bóluefni. Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu þessa áætlun og stöðu heimsfaraldursins við Boga Ágústsson í Heimsgluggaspjallinu. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna, WHO og UNICEF, eru meðal þeirra sem standa að þessari áætlun. Til þessa hafa ríku þjóðirnar í heiminum keypt yfirgnæfandi meirihluta þess bóluefnis sem komið hefur á markað. Flestar þeirra hafa keypt bóluefni langt umfram þarfir og mörg ríki hafa lofað að bóluefni sem þau hafa ekki þörf fyrir verði dreift til fátækari ríkja í gegnum COVAX-áætlunina. Einnig kom til umræðu aðgerðir norrænna þjóða vegna kórónuveirufaraldursins. Danir hafa boðað tilslakanir á meðan Svíar herða aðgerðir. Ragnar Bjartur Guðmundsson, markaðsfræðingur, heldur úti ítarlegum gagnagrunni um heimsfaraldurinn. Sjá má greiningu hans á stöðunni á Norðurlöndum vefsíðunni https://datastudio.google.com/reporting/9d1f6b8e-0be9-48ac-b29a-eca1c5dc024a/page/2DgxB?s=pvAtffLIac8&params={"df41":"include%EE%80%803%EE%80%80T"} Í lokin ræddu þau stuttlega greiningu Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra í Washington og Moskvu, á stöðu Íslands í heiminum. Hann birtir skrif sín um þróun í alþjóðamálum út frá stöðu Íslands og spáir í þróunina næstu áratugi. Skrif hans má lesa á heimasíðu hans, https://albert-jonsson.com/

Customer Reviews

5.0 out of 5
6 Ratings

6 Ratings

Top Podcasts In News

Listeners Also Subscribed To